Brautir

BHSSkólinn býður upp á fjölbreytt nám, bæði almennt nám, bóklegt nám til stúdentsprófs, starfsnám, iðnnám og sérnámsbraut fyrir fatlaða.

Innritun - Umsóknir

Í boði eru eftirtaldar námsbrautir:

Bíliðngreinar

Nemendur öðlast að loknu sveinsprófi réttindi til starfa í bíliðngreinum og til náms í meistaraskóla. Boðið er upp á grunndeild bíliðna, bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, bílamálun.

Bóknám til stúdentsprófs

 • Félags- og hugvísindabraut.  Nám á félags- og hugvísindabraut veitir nemendum víðtæka almenna menntun og undirbýr þá fyrir háskólanám.   Áhersla er lögð á félagsvísindi, tungumál og hugvísindi.
 • Náttúrufræðibraut.  Á náttúrufræðibraut öðlast nemendur haldgóða menntun í grunngreinum náttúruvísinda ásamt því að hljóta víðtæka almenna menntun. Áherlsa er lögð á stærðfræði og aðrar raungreinar.
 • Viðskipta- og hagfræðibraut.  Á brautinni öðlast nemendur innsýn í heim verslunar og viðskipta og hentar námið því vel þeim sem hyggjast leggja stund á háskólanám á þeim sviðum. Áhersla er lögð á færni í stærðfræði og hagnýtingu hennar auk þess sem nemendur kynnast grunnþáttum í þjóð- og rekstrarhagfræði.
 • Afreksíþróttasvið.  Afreksíþróttasvið er fyrir nemendur sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða bóknámi.  Boðið er upp á afreksíþróttasvið í knattspyrnu, körfuknattleik, handbolta, íshokkí, golfi og einstaklingsíþróttum.
 • Viðbótarnám til stúdentsprófs.  Nemendur sem ljúka skilgreindu starfsnámi eða námi á listnámsbrautum eiga kost á viðbótarnámi til undirbúnings náms á háskólastigi.

Framhaldsskólabraut

Nám fyrir þá sem ekki uppfylla inntökuskilyrði á ofangreindar námsbrautir eða eru óákveðnir.

Listnámsbraut

 • Grafísk hönnun - þjálfun í hugmynda- og skissuvinnu og nauðsynlegri tækni til að útfæra hugmyndir og fullvinna verk fyrir prent- og skjámiðla. Áhersla á á þekkingu og færni í ljósmyndun, myndvinnslu, umbroti, vefsíðuhönnun, auglýsingahönnun, mörkun og leturfræði. Fræðilegir áfangar gefa yfirlit yfir sögu, inntak og lykilhugtök grafískrar hönnunar.
 • Kvikmyndagerð - þjálfun í hugmynda- og handritsgerð, upptökum, klippingu og eftirvinnslu kvikmynda. Heimildamyndagerð, útsendingar úr stúdíói og kvikmyndun á vettvangi. Fræðilegir áfangar gefa yfirlit um strauma og stefnur í kvikmyndagerð, inntak kvikmyndagerðar og lykilhugtök. Í lokin fullvinna nemendur eigin kvikmynd til sýningar
 • Leiklist - þjálfun í raddbeitingu, sviðshreyfingum ásamt leiktækni á sviði og fyrir kvikmyndir. Áhersla á þekkingu og færni í fjölbreyttum þáttum sviðsetningar, leikgerðar, lýsingar, sviðsmuna, búningahönnunar, leikmyndagerðar og hljóðvinnslu. Fræðilegir áfangar gefa yfirlit yfir faglegan og sögulegan grunn til sköpunar og rannsókna við uppsetningu sviðsverka.
 • Hagnýt margmiðlun í dreifnámi og því auðvelt að stunda það með vinnu eða öðru námi.. Námið nýtist öllum sem vilja ná tökum á upplýsingatækninni til marksækinnar miðlunar. Námið er vel til þess fallið að auka færni í starfi eða auka starfsmöguleika og er fyrir þá sem lokið hafa framhalds- eða háskólanámi. Námið er á 4. þrepi sem gerir háskólum mögulegt að meta námið til háskólaeininga (ECTS-eininga). Innritað verður næst í hagnýta margmiðlun í janúar 2018.

Málm- og véltæknigreinar

Nemendur öðlast að loknu sveinsprófi réttindi til að starfa í málm- og véltæknigreinum og málmsuðu og réttindi til náms í meistaraskóla.

Sérnámsbraut

Námsbraut fyrir fatlaða. Námið er góður undirbúningur fyrir störf á vinnumarkaði/vernduðum vinnustöðum.

Þjónustubrautir

 • Leikskólaliðabraut.  Hagnýtt nám fyrir þá sem vilja vinna með börnum og afla sér hagnýtrar starfsmenntunar á stuttum tíma.  Markmið námsins er að veita þekkingu og færni til að starfa með börnum í námi í leik.
 • Félagsmála- og tómstundabraut.  Nám sem eykur þekkingu á vettvangi frítímans og á tómstundastarfi barna, unglinga, fatlaðra og aldraðra?  Markmið námsins er að koma til móts við þá nemendur sem hafa áhuga á frístundastörfum fyrir almenning.  Starfsvettvangur þeirra sem ljúka þessu námi er einkum félagsmiðstöðvar, íþrótta- og æskulýðsfélög og önnur félagasamtök.
 • Félagsliðanám.  Félagsliðanám er fagnám fyrir störf í félagsþjónustu- og uppeldisstofnunum með áherslu á sálfræði, uppeldi, umönnun og fatlanir. Nám fyrir þá sem eiga auðvelt með mannleg samskipti og vilja vinna með fólki.  Fjölbreytt nám á framhaldsskólastigi.
 • Stuðningsfulltrúar.  Í grunn- og framhaldsskólum er rík þörf fyrir sérmenntaða stuðningsaðila til fjölbreyttra starfa.  Námið er því góður kostur fyrir þá sem vilja vinna í áhugaverðu starfsumhverfi við skapandi viðfangsefni.  Stuðningsfulltrúar eru kennurum til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda. 
 • Skólaliðar.  Starfsvettvangur skólaliða er grunnskólar og felst vinna þeirra aðallega í að aðstoða nemendur á skólatíma og í lengdri viðveru bæði innan- og utanhúss.  Í því felst að stuða að jákvæðu og uppbyggilegu andrúmslofti í leik og samskiptum nemenda, tryggja öryggi þeirra og aðstoða við að halda utan um fatnað og aðra muni.  Jafnframt sjá skólaliðar um daglega ræstingu húsnæðis og að halda umhverfi skóla hreinu og snyrtilegu.


3.4.2017