Líf í borgarholtsskóla

30/05/2024 | Ritstjórn

Brautskráning vor 2024

Brautskráðir nemendur og skólameistarar

Brautskráðir nemendur og skólameistarar

Brautskráning Borgarholtsskóla fór fram í Háskólabíói fimmtudaginn 30. maí 2024. Athöfninni var auk þess streymt á facebook síðu skólans af nemendum í kvikmyndagerð undir stjórn Þorgeirs Guðmundssonar kennara.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spilaði undir stjórn Daða Þórs Einarssonar í salnum á meðan gestir voru að koma sér fyrir í sætum.

Ársæll Guðmundsson skólameistari setti athöfnina og byrjaði á því að kalla Daða Þór Einarssyni upp á svið þar sem honum var færður þakklætisvottur fyrir að hafa spilað við brautskráningar í Borgarholtsskóla í 20 ár eða alls 40 sinnum en Daði Þór lætur senn af störfum eftir margra ára starf sem hljómsveitarstjóri skólahljómsveitar Mosfellsbæjar. Að því loknu gaf Ársæll orðið til Nökkva Jarls Bjarnasonar kennara sem var kynnir og stýrði athöfninni.

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari flutti annál annarinnar. 1098 nemendur stunduðu nám við skólann, 901 í dagskóla og 197 í dreifnámi. Í bóknámi voru 260 nemendur, í iðn- og starfsnámssviði voru 567 nemendur, í listnámi voru 139 nemendur og á undirbúnings- og sérnámssviði voru 132 nemendur. Ásta Laufey fór yfir það helsta sem gerst hefur á önninni, bæði í hinu formlega skólastarfi og hjá Nemendafélagi skólans sem staðið hefur sig mjög vel.

Sönghópur Borgarholtsskóla flutti tvö tónlistaratriði undir stjórn Olgu Lilju Bjarnadóttur kennara. Fyrra lagið sem þau fluttu var Fallegur dagur – lag og texta Bubba Morthens. Hið síðara var Vikivaki, lag Valgeirs Guðjónssonar við texta Jóhannesar úr Kötlum.

Ársæll og Ásta Laufey sáu um brautskráningu nemenda ásamt sviðsstjórum en 119 nemendur voru brautskráðir af flestum námsbrautum skólans og sumir útskrifuðust af fleiri en einni braut. Öllum útskriftarnemum var afhent birkiplanta til gróðursetningar en það er hefð sem var innleidd á fyrstu árum skólans. Fjölmörg verðlaun og viðurkenningar voru veitt fyrir frábæran námsárangur og skólasókn. Lilja Sigurðardóttir og Sunna Líf Arnarsdóttir voru með hæstu einkunnir á stúdentsprófi en þær útskrifuðust báðar af  listnámsbraut með leiklist sem kjörsvið.

Óliver Tumi Auðunsson og Ísak Magnússon fluttu kveðjuávarp útskriftarnema en þeir brautskráðust báðir af listnámsbraut með kvikmyndagerð sem kjörsvið. Ávarp 10 ára útskriftarnema flutti Hjörleifur Steinn Þórisson sem útskrifaðist af félagsfræðibraut árið 2014. Gyða Ólafía Friðbjarnardóttir flutti ávarp 20 ára útskriftarnema en hún útskrifaðist úr bifvélavirkjun árið 2004.

Ársæll Guðmundsson flutti kveðjuorð til brautskráðra nemenda þar sem hann lagði út af ást og kærleika, siðferði, hraðanum í samfélaginu og hvað það er sem mótar hugsanir einstaklinga.

Velunnurum skólans var þakkað fyrir þeirra framlag til skólastarfsins. Starfsfólki Borgarholtsskóla var þakkað fyrir samstarfið á skólaárinu. Einnig var öllum þeim, sem með einum eða öðrum hætti, komu að framkvæmd og skipulagningu brautskráningarinnar færðar sérstakar þakkir.

Að lokum var nemendum óskað velfarnaðar og góðs gengis í að ná sínum markmiðum, auk þess sem þeim var þakkað fyrir þeirra skerf til skólans.

Fleiri myndir frá athöfninni eru á facebook síðu skólans.