15/09/2023 | Ritstjórn
Laxness-Jagúarinn

Jagúarhópurinn fundar á Gljúfrasteini 15. september 2023
Í Borgarholtsskóla hefur undanfarin misseri verið unnið að viðgerðum á Jagúar-bifreið Nóbelskáldsins okkar, Halldórs Kiljan Laxness. Verkið er unnið af nemendum skólans í bílamálun og bifreiðasmíði undir handleiðslu kennara. Nú er farið að hilla undir verklok og er áætlað að bíllinn verði afhentur safninu að Gljúfrasteini nú í vor.
Á dögunum var efnt til verkfundar við borðstofuborð skáldsins á Gljúfrasteini þar sem saman komu fulltrúar Borgarholtsskóla og safnsins auk starfsmanna Poulsen og B&L, en þessi fyrirtæki hafa bæði komið að verkinu með myndarlegum hætti. Poulsen skaffar allt efni sem þarf til að mála bílinn og B&L hafa gefið ýmsa varahluti sem á hefur þurft að halda og pantað þá beint frá Jagúar-verksmiðjunum á Bretlandi.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er enn nokkuð langt í land að Jagúarinn verði tilbúinn en áætlað er að ytra byrði verði málað á næstu tveimur vikum. Þá fara vél og gírkassi í yfirhalningu og á meðan verður vélarhúsið málað. Að því loknu verður bíllinn settur saman og afhentur safninu.
Myndagallerí

Elma Björnsdóttir, Sylvía Karen Ragnarsdóttir, Sólrún Eva Hilmarsdóttir og Stefán Árni Stefánsson, nemendur í bílamálun

Jagúarinn bíður þess að verða málaður