Líf í borgarholtsskóla

17/03/2025 | Ritstjórn

Mín framtíð

Tveir nemendur í bíliðngreinum kynna

Tveir nemendur í bíliðngreinum kynna

Dagana 13.-15. mars fór fram stóra framhaldsskólakynningin Mín framtíð í Laugardalshöll. Öllum nemendum landsins í 9. og 10. bekk var boðið á sýninguna en þar gátu tilvonandi framhaldsskólanemendur kynnt sér námsframboð og þjónustu skólanna. Mín framtíð var haldin í samvinnu við Mennta- og barnamálaráðuneytið, sveitarfélög og fagfélög iðn- og starfsgreina.

Nemendur og starfsfólk Borgarholtsskóla stóðu vaktina í Laugardalshöll og kynntu fyrir grunnskólanemendum þær fjölbreyttu námsleiðir sem skólinn býður upp á. Nemendur úr leiklist sýndu söngatriði úr Wicked söngleiknum og nemendur úr hinum ýmsu greinum skólans kynntu sína grein vel.

Á sama tíma hélt Verkiðn Íslandsmót iðn- og verkgreina. Keppt var í fjölmörgum greinum og tókust keppendur á við krefjandi og raunveruleg verkefni sem reyndi á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku þeirra. Nemendur Borgarholtsskóla kepptu í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, bílamálun, málmsuðu og pípulagningum. Nemendur stóðu sig mjög vel í öllum greinum en einungis nemendur úr Borgarholtsskóla kepptu í bíliðngreinum. Valería Jakobsdóttir keppti í málmssuðu. Hún varð þó ekki hlutskörpust þar en það kom á móti að hún vann 1. verðlaun í suðuhermi sem Tækniskólinn var með en skoraði þar 96 af 100 stigum og skákaði þar með öllum dómurum og suðuverkfræðingum keppninnar og fékk vegleg verðlaun fyrir.

Sýningin tókst afar vel og stóðu nemendur sig vel í að kynna líflegt og fjölbreytt nám Borgó, ásamt því að keppa í sínum iðngreinum.

Þriðjudaginn 18. mars er opið hús í Borgarholtsskóla og þar gefst tilvonandi framhaldsskólanemendum enn betra tækifæri til að kynna sér námsframboð, aðstöðu og þjónustu skólans.