26/02/2025 | Ritstjórn
Rennismiður verðlaunaður á nýsveinahátíð

Vignir Ingi, annar frá vinstri, ásamt Höllu Tómasdóttir, forseta Íslands, meistara sínum og fulltrúa Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur
Nýlega fór fram nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins á Hótel Natura. Þar voru verðlaunaðir sveinar sem sköruðu fram úr. Vignir Ingi Birgisson útskrifaðist sem rennismiður frá Borgarholtsskóla síðastliðið vor og lauk sveinsprófi nýlega. Hann var verðlaunaður fyrir elju og dugnað og sérlega vel útfært sveinsstykki og sveinspróf. Hann tók við verðlaunum fyrir þetta en Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhenti verðlaunin.
Þetta er annað árið í röð sem nemandi í rennismíði frá Borgarholtsskóla er verðlaunaður á hátíðinni og er það kennslu í málmiðngreinum til mikils sóma. Vigni Inga er óskað innilega til hamingju með árangurinn.