Líf í borgarholtsskóla

07/02/2025 | Ritstjórn

Skóhlífadagar og Glæsiball

Nemendur í góðri stemmingu á Glæsiballi

Nemendur í góðri stemmingu á Glæsiballi

Skóhlífadagar, þemadagar Borgó, fóru fram á miðvikudag og fimmtudag í vikunni. Þá fellur hefðbundin kennsla niður en nemendur velja sér þess í stað fjölbreytt námskeið að sækja. Að vanda var úrvalið mikið en nemendur fóru á skauta, bjuggu til stop motion myndir, gerðu Eurovision nasl, perluðu armbönd fyrir Kraft, spiluðu Dungeons and dragons, léku sirkuslistir og spiluðu skák.

Því miður setti veðrið töluvert strik í reikninginn en ekki var hægt að fara í jeppaferð né sleðaferð eins og hefð hefur verið fyrir undanfarin ár. Auk þess féll niður skólahald á fimmtudeginum og varð þess vegna ekkert úr námskeiðum sem átti að halda þá. Sem betur fer gekk veðrið niður um kvöldið og hægt var að halda Glæsiballið, sem er árshátíð nemenda.

Glæsiballið var vel sótt en veislustjórar voru Arnar Þór og Aron Már Ólafssynir. Þema kvöldsins var stjörnum prýdd nótt og nemendur voru hvert öðru glæsilegra. Nemendur fengu dýrindis kalkún og meðlæti og í eftirrétt var súkkulaðimús. Starfsfólk þjónaði að vanda til borðs. Hæfileikakeppni fór fram og bar Aðalsteinn Gunnar Freysson sigur úr býtum en hann söng lagið All of me með John Legend. Hljómsveitin Húbbabúbba kom svo í lok kvölds og hélt uppi fjörinu.

Skóhlífadagar eru alltaf skemmtilegt uppbrot á skólastarfinu og Glæsiballið ómissandi hluti af félagslífi nemenda.